Laugardagur, 25. apríl 2009
Krafa dagsins.
Fremsta krafa landsmanna er auðvitað að auka hag sinn - efla menningu sína - skapa börnum sínum þau skilyrði til hugar og handar að sambærilegt sé við það besta í samfélagi þjóða í nútíð og framtíð. En umfram allt viljum við vera Íslendingar og taka þátt í íslenskri sjálfstæðisbaráttu - baráttunni sem aldrei lýkur. Við viljum taka þátt í að brjóta hverja þá ógnaröldu er á þjóð okkar kann að skella - eins og harðar bergnasir okkar sæbröttu strandar brjóta þungar og svalar öldur Atlantshafsins. Við verðum líka að efla samkennd og réttlæti með þjóðinni, milli byggða og milli manna - og þjóða.
En eins og fram kemur í erindi þjóðskáldsins hefur okkar fallega gjöfula land með fallvötn, jarðhita, gjöful fiskimið og gróðurmold hvíslað að honum sínar kröfur og bendir okkur á leiðir:
Og nú flyt ég til þín þessi alvöruorð,
Sem mitt ættarland hvíslaði að mér.
Ekki einungis bindur ósk þess við borð,
lífið allt krefst hins sama af þér.
(Jóhannes úr Kötlum)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Vinur.
Svei mér, ef þú ert ekki kominn með nákvæmlega sömu sjónarmið og við, ungir sjálfstæðismenn höfðum á stefnuskrá okkar fyrir alþingiskosningarnar 1946. Við hefðum þó sennilega fremur vitnað þá til Einars Ben en Jóhannesar, með allri virðingu fyrir honum, og endað hugleiðinguna með:
Heyr mig, lát mig lífið finna,
læs mér öll hin dimmu þil.
Gef mér stríð- og styrk að vinna,
Stjarna, drottning óska minna.
Ég vil hafa hærra spil,
hætta því, sem ég á til.
Bráðum slær í faldafeykinn,-
forlög vitrast gegnum reykinn.
Alls má freista. Eitt ég vil:
Upp með taflið! Ég á leikinn.
kveðja, Sveinn.
sveinn snorason (IP-tala skráð) 25.4.2009 kl. 12:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.