Fimmtudagur, 14. maí 2009
Skattpína eldri borgara.
Maí 2009.
Ég vil eindregið hvetja alla til að lesa þessa grein Bjarna, enda er Bjarni ein okkar færasti sérfræðingur í þeim málum sem snerta okkar hagsmuni mest, tryggingar og skattmál.
Erling Garðar Jónasson.
Föstudaginn 1. maí, 2009 - Aðsent efni
Er unnt að skattpína eldri borgara enn meir?
Eftir Bjarna Þórðarson
Útreikningar gerðir með aðstoð Reiknhildar á vef TR.
Tegund | Anna | Guðrún | Jón | Sigurður |
|
TR | 180.000 | 103.408 | 99,327 | 53.758 |
|
Lífeyrissjóður | 0 | 0 | 100.000 | 100.000 |
|
Fjármagnstekjur | 0 | 100.000 | 0 | 100.000 |
|
Skattur | 24.755 | 10.000 | 31.945 | 24.993 |
|
Greiðsla Skerðing Hlutfall skerðingar | 155.245 | 193.408 61.837 62% | 167.382 87.863 88% | 228.765 126.480 63% | - |
Bjarni Þórðarson
Eftir Bjarna Þórðarson: "Stjórnmálamenn virðast ætla að auka enn skattlagningu eldri borgara með auknum tekjutengingum og hækkun fjármagnstekjuskatts af sparifé."
NÚ HAFA ábyrgir stjórnmálaleiðtogar látið í veðri vaka að hugsanlega verði svonefndur fjármagnstekjuskattur hækkaður, svo og eru hugmyndir uppi um auknar tekjutengingar. Ekki verður vanþörf á að hækka skatta, hvort sem skatttekjur hækka sem slíkar eða ekki, eins og nú er í pottinn búið. Hins vegar verða allir að gera sér skýra grein fyrir skattstofnunum og hvað felst í breyttri skattálagningu fyrir einstaka hópa þegnanna.
Væntanlega var sparifé landsmanna í innlendum fjármálastofnunum meginstofn fjármagnstekjuskatts á árinu 2008. (Einhverjir voru svo heppnir að selja hlutabréf sín en flestir sem áttu bréf töpuðu margfaldri þeirri fjárhæð sem þeir greiddu í skatt af arði á síðustu árum.) Lánskjaravísitala hækkaði um rúm 16% á árinu þannig að nafnvextir þurftu að nema a.m.k. 16% að meðaltali á bankainnstæðum til þess að viðhalda verðgildi sínu. Skyldu þeir vera margir Íslendingarnir sem nutu jákvæðrar raunávöxtunar á sparifé á árinu 2008, þ.e. fengu hærri nafnvexti en 16%? Mér er það mjög til efs. Sá sem náði 16% nafnvöxtum þarf að greiða ríkisvaldinu 1,6% hér af sem fjármagnstekjuskatt og heldur 14,4% eftir. Sparifjáreignin hefur því lækkað að raungildi.
Mér er ekki grunlaust um að eldri borgarar eigi allstóran hluta af sparifénu í bönkunum og hafi ætlað að eiga það til góða eftir að þeir væru seztir í helgan stein. Ekki er nóg með að þeir verði fyrir þessari rýrnun vegna skattheimtunnar heldur er einnig höggvið í þennan knérunn af Tryggingastofnun ríkisins (TR). Nú, hvernig má það vera? Jú, lífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar skerðast ef lífeyrisþeginn hefur aðrar tekjur, t.d. frá lífeyrissjóði og vexti af sparifé og fyrir einstaklinginn er þetta ígildi tekjuskatts.
Við skulum skoða aðstæður fjögurra skólasystkina um sjötugt. Öll eru þau einstæð, tvö eiga ekki rétt til lífeyris frá lífeyrissjóði, en annað þeirra á 7,5 millj. á góðum bankareikningi. Hin tvö eiga rétt til 100 þús. kr. úr lífeyrissjóði á mánuði og annað þeirra á 7,5 millj. kr. á bankareikningi. Meðfylgjandi tafla sýnir mánaðarlegar tekjur hvers um sig þegar gert er ráð fyrir 16% vöxtum af bankareikningunum.
Sjá töflu
(Útreikningar gerðir með aðstoð Reiknhildar á vef TR)
Verðbólga er 16% svo raunávöxtun er engin af bankareikningum. Guðrún verður engu að síður að sætta sig við fjármagnstekjuskatt sem nemur 62%. Skattlagningin á lífeyri Jóns nemur aðeins" 88% og skattlagningin á lífeyri og fjármagnstekjur Sigurðar nemur 63%.
Er eitthvert vit í þessu? Hvað með skerðingar vegna legu á hjúkrunarheimilum? Þessi hópur, þ.e. einhleypir lífeyrisþegar, er líklega verst settur gagnvart skerðingum og verðbólga í fyrra vonandi einstök. Aðstæður nú eru kannske ekki fallnar til breytinga í lagfæringarátt (en undanfarin ár hefur ávallt verið stefnt að því að draga úr tekjutengingum en raunin hefur orðið þveröfug) en er nokkurt vit í auknum tekjutengingum, eða hvað?
Verðtrygging
Fyrir nokkrum vikum krafði ég gagnrýnendur verðtryggða húsnæðislánsformsins um lýsingu á því lánsformi sem við ætti að taka. Enginn hefur svarað enn. Fjármálaráðherra færði sem rök fyrir afnámi verðtryggingar nýlega í sjónvarpi að stýrivaxtavopnið væri bitlítið þar sem verðtryggingin væri svo víðtæk sem raun ber vitni. Sem sagt stjórnvöld gætu ekki krafið skuldara húsnæðislána um 18-20% í vexti af eftirstöðvum lánanna en í því felst biturleiki vopnsins! Menn eiga að segja beint út það sem þeir meina. Lántakendur sem hlýddu á ráðherrann hafa eflaust ekki áttað sig á áhrifunum sem hann saknaði að hafa ekki getað náð fram eftir hrunið. Kannske hefur hann sjálfur ekki gert það.Brýna nauðsyn ber til að bjóða upp á óverðtryggða lánakosti sem fólk getur valið í stað hins verðtryggða sem og til þess að umbreyta gildandi lánum og gera skýra grein fyrir því hvernig greiðslubyrðin breytist. Ég sé enga aðra skýringu á tómlætinu en þá að ekkert lánsform sé í sjónmáli. Þá þarf að skýra fyrir fólki hvað muni felast í niðurskurði lána um 20% eða kippa vísitölu úr sambandi með hliðstæðum áhrifum. Hvað mun það kosta ríkissjóð í auknum skuldbindingum, en hann ber ábyrgð á öllum skuldum Íbúðalánasjóðs, sem ekki verður velt yfir á aðra en skattgreiðendur og þar munu eldri borgarar örugglega þurfa að bera drjúgan hluta.
Höfundur er tryggingastærðfræðingur.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:42 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.