Á tímamótum hjá Mogganum mínum.

Mér er harmur í brjósti að sjá á bak þeirra mörgu framúrskarandi blaðamanna sem nú hætta störfum á Morgunblaðinu. Þetta fólk hefur staðið að viðgangi og vexti vandaðasta frjálsa fjölmiðils á lýðveldistíma okkar íslendinga og tók við því hlutverki af ötulum og framsýnum brautryðjendum  sem höfðu að markmiði frá upphafi að Morgunblaðið yrði faglegt og vandað blað.

Morgunblaðið er ekkert „venjulegt fyrirbæri",  Morgunblaðið er orðin ómissandi en vandmeðfarin stofnun sem í liggja gífurleg verðmæti þekkingar og hefða.

Því verð ég að spyrja nýja eigendur Morgunblaðsins hvort þeir hafi ekki gert sér grein fyrir þörf á nýju fjármagni til rekstrar og þróunar blaðsins vegna þeirra stöðu sem blaðið var í þegar þeir keyptu.

Svo virðist ekki vera samkvæmt umræðum um stöðu blaðsins.

 Þó ég sé einn af meirihluta þjóðarinnar sem aldrei hef aðhyllst þær stjórnmálaskoðanir sem Morgunblaðið hefur staðið í vörn og sókn fyrir frá upphafi, hef ég verið áskrifandi blaðsins frá upphafi eigin sjálfstæðis og efnislegra aðstæðna enda þá eðlilegt framhald venju úr foreldra húsi.

Morgunblaðið hefur aldrei brugðist mér varðandi þjónustu í frétta og blaðamennsku í næsta fimm áratugi síðan minn áskriftarferill hófst.

Skilnaðar „á borði og sæng"  átti því miður sér stað tvisvar á þessum ferli, til nokkra vikna, vegna pólitískrar stefnumótunar blaðsins, sem að mínu mati var í bæði skiptinn ekki sæmandi þessu vandaðasta blaði þjóðarinnar. Á þeim árum hafði ég verk að vinna í vörnum landsbyggðarinnar, þá var alltaf hægt að treysta á að blaðamennska Morgunblaðsins færi faglega og hlutlaust í skrifum um þau mál og geri reyndar enn.

Að fara tvisvar í „ Moggafílu" á  tæpum fimmtíu árum er ekki mikið fyrir venjulegan sósíalista.

Ég verð að treysta því að formaður stjórnar Árvakurs standi við þau orð sín, „að menn vissu vel að fjölmiðlar Árvakurs nytu óskoraðs trausts þjóðarinnar og því trausti ætluðu þeir ekki að bregðast". „Við munum áfram flytja óhlutdrægar, heiðarlegar og sanngjarnar fréttir af öllu sem máli skiptir, eigendum Árvakurs jafnt sem öðrum. Í þeim efnum mun ekkert breytast".  Óskar sagði á fundinum að  ekki væri gert ráð fyrir breytingum á fréttastjórn Morgunblaðsins.

Það var mjög sæmandi fyrir nýja stjórn þessa virta blaðs að hafa haft í huga máltækið „ engin verður óbarin biskup" þegar nýi aðalritstjórinn var valinn.

Að velja langbarið og reynslumikið ofurmenni í íslenskum stjórnmálum er að sjálfsögðu mjög viðeigandi vegna eðli málsins og þess viðsjáverða þjóðfélagsástands sem búið er við.

Sem þolandi en um leið notandi Morgunblaðsins, vonandi um nokkurn tíma í viðbót, vil ég óska nýjum ritstjórnarjöfrum velfarnaðar í vandasömum störfum og Mogganum mínum heilum til framtíðar að líta.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband