Miðvikudagur, 21. október 2009
"Á okkur dæmist á sukkinu sökin, Og svelta því megum um ókomna tíð".
Send var mér stikla sem Stefán Jónsson kvæðamaður kveður í uppgjöri við Jóhönnu;
Nú er ég kominn á níræðisaldur
Í nösunum merki ég grafarmoldarþef
Fjármálaráðherra verður þess valdur
Að viðnám við dauðanum lítið ég hef.
Með heilagri Jóhönnu hamast nú á mér
Og hirðir þá aura, sem sparað ég gat
Til ellinnar hugðist ég eiga þá hjá mér
Svo efni ég hefði á lyfjum og mat.
Það er ekki að undra að þótt snillingar orðlistar kveði kröftugar hendingar um ímyndaðan veruleika fyrstu hreinræktuðu vinstri ríkisstjórnar íslendinga um að breiðu bökin séu eldri borgarar þjóðarinnar.
Því ríkistjórn hefur hækkað allt sem hún getur hækkað og viðskiptalýður landsins fylgir því fordæmi og hefur hækkað matarverð um tugi prósenta og ekki dugar að láta sér nægja íslensk matvæli því þau hafa sum hver hækkað mest eða um og yfir 50% -sérstaklega landbúnaðarvörur. Bensínverð hefur aldrei verið hærra. opinber þjónusta hækkað gífurlega. Lyfjaverð og heilbrigðisþjónusta er varla viðráðanleg nema betur stæðum.
Tekjuauki engin finnanlegur og þótt svo væri ekki nothæfur nema svartur væri, vegna skerðingar og skattaauka. Og stjórnmálastéttin seilist dýpra og dýpra í tryggingarsjóð okkar eldri og öryrkja með svo hræðilegum aðferðum að helst má líkja við aðferðafræði mafíósa.
Gjótum augum aðeins yfir þá "sviðnu jörð".
Lífeyrisþegar geta haft 99 þúsund kr. í fjármagnstekjur á ári án þess að það skerði lífeyri almanna trygginga. Fjármagnstekjur umfram það skerða lífeyrisgreiðslur að fullu, í stað 50% áður. Já ósvífnin er ótrúleg þar sem verðbætur vegna rýrnunar höfuðstóls sparnaðar er taldar fjármagnstekjur, dæmi:
Jóna gamla átti eftir ævilangan sparnað, ótal gengisfellingar fyrir útgerðarmenn landsins og neikvæða ávöxtun um áratugaskeið, eina miljón króna á verðtryggðum sparireikningi allt árið 2008, vextir voru 4% en verðbólgan var 16%.
Jóna fékk 40þkr. vexti en höfuðstóllinn er verðbætur um 160 þkr.
Samtals "fjármagnstekjur" 200þkr í stað 40þkr.
Jóna er tekjulaus einstaklingur með 1640þkr/ári eftirlaun almanna trygginga eftir skatta
Samtals skerðir þessi sparsemi Jónu bætur hennar um 200-99= 101þkr á ári.
En Jóna varð fyrir því "óhappi" að erfa sparsjóðsbókina hennar Siggu frænka sinnar sem hafði lifað ríkan eiginmann sinn í barnlausu hjónabandi um mitt ár 2008 með 8 miljóna króna inneign. Þar með urðu fjármagnstekjur Jónu allt í einu 800 + 101=901þkr, og til rýrnunar eftirlauna niður í núll síðustu sex mánuði 2008 miðað við núverandi skerðingar + 300þkr. viðbótar skattareikning frá Steingrími fjára .
Hún fær engin eftirlaun 2009 frá almanna tryggingum en Steingrímur fjári fær um 600þkr. frá Jónu í viðbótarskatta. Jóna gamla er "breiða bakið" nú á elli árum með um 70% heildarskattlagningu og er því í ofurmannaflokki Steingríms Fjármálaráðherra.
Jóna gamla er ýmsu vön eftir grýtta vegferð hennar kynslóðar að bættum lífskilyrðum fyrir íslenska þjóð, en nú er hún verulega uggandi vegna frétta um að Steingrímur ætli að hækka fjármagnsskatt frá 15% í 25%, því þá verða jaðarskattar hennar langt yfir 100%.
Stefán kvæðamaður æðrulaus með þykkan skráp, kveður og Jóna tekur sjálfsagt undir;
Við gamlingjar höfum víst breiðustu bökin
Og brugðist því getum við álagahríð
Á okkur dæmist á sukkinu sökin
Og svelta því megum um ókomna tíð.
Andmæla réttur mér engin er gefinn
því ei mátti verða á framkvæmdum töf,
Hjá ríkisstjórn Jóhönnu reiddur var hnefinn
svo rétt hef ég hvorki á kistu né gröf.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.