"Hvílíkt heimskunnar vald ræður vilja þess manns, sem knýr veikari bróður á hjarn"

Tekið fram og birt vegna sérþarfa yfirlýsingar Lilju Mósesdóttur í Silfri Egils í hádeginu í gær.----------   Er fúl móti eins og við var að búast.

Þá eru við að nálgast "helvítis grjóthólmann" sagði kokkurinn um leið og hann einhenti slyngu listum eldavélarinnar á sinn stað svo pottarnir færu hvergi þegar skipið lyftist um leið og siglt var yfir á landgrunskantinn. Þetta var ástarjátning skapstirðs matsveins til ættarlandsins, það var bara ekki hægt að orða hana öðruvísi í hóptilveru karlrembu skipshafnarinnar.

Engan þekkti ég á þeim árum meiri föðurlandsvin en þennan kokk, en síðan hef ég skynjað að  eitthvað færir okkur íslendinga í meiri huglæg tengsl við fósturlandið en nokkra aðra þjóð sem ég þekki til.

Ástæðan gæti verið hið sérstæða hugarfar eybúa, einangrun fyrri kynslóða eða bara náttúrulegar ástæður. Eldur og ís, binda land og þjóð saman sterkum böndum. Þjóðskáldið Jóhannes úr Kötlum lýsir þessum tilfinningum svo vel í kvæðinu; Þegar  landið fær mál. Þar er það landið sem talar til þjóðarinnar í bæði mjúku og myrkvuðu máli, gefur ráð og kastar fram spurningum til umhugsunar.

 "Hvílíkt heimskunnar vald ræður vilja þess manns,

sem knýr veikari bróður á hjarn,

og sem gína vill einn yfir auði síns lands,

  • hann er ekki minn sonur, mitt barn!"

Það hefði verið sársaukafullt fyrir þennan kokk sem kenndi mér hvað þjóðernisást er, að upplifa afleiðingar af "heimskunnar valdi"  frá liðnum áratugum.

Hann vildi taka þátt í að brjóta hverja þá ógnaröldu er á þjóð okkar kunni að skella - eins og harðar bergnasir okkar sæbröttu strandar brjóta þungar og svalar öldur Atlantshafsins.

Hann hefði líka viljað efla samkennd og réttlæti með þjóðinni, skapa aðstæður til þjóðarsáttar um endurreisn á grundvelli hagsmuna heildarinnar en ekki sérhagsmuna eða sérlyndis einkenna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband