Miðvikudagur, 4. nóvember 2009
Skýrsla AGS, þungir skaflar en ekki ófærð framundan.
Skattahækkanir auka verðbólguna
Vegna skattahækkana og veikingar krónunnar á þessu ári verður verðbólga líklega hærri á þessu ári en áður var gert ráð fyrir, eða 7%.Þetta kemur fram í skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem birt var í dag. Í skýrslunni segir að starfsmenn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á Íslandi og stjórnvöld búist við að kreppan nái hámarki á fyrri helmingi næsta árs og þá taki efnahagslífið við sér á ný.
Flestir greinendur gerðu ráð fyrir að verðbólga færi undir 5% fyrir árslok og sumir spáðu raunar að hún næði verðbólgumarkmiði Seðlabankans í upphafi næsta árs.
Samkvæmt skýrslunni voru skuldirnar taldar nema 8,2 milljörðum dollara í upphafi en eru nú taldar nema 5,6 milljörðum dollara eða um 700 milljörðum kr. Sumar af þessum skuldbindingum hafa verið greiddar upp eins og til dæmis í Þýskalandi (Edge) auk þess sem í upphafi var lagt varfærið mat á þær innistæður nutu trygginga.
Eignir erlendra aðila í íslenskum krónum voru 1,9 milljörðum dollara eða tæplega 240 milljörðum kr., hærri en áður var talið. Þessi aukaupphæð skiptist á milli skuldabréfa Seðlabankans, ríkisbréfa og Euroclear/Clearstream reikninga sem Seðlabankinn hefur tekið yfir.
Fram kemur að skuldir bankageirans nemi 5 milljörðum dollara eða 42% af landsframleiðslu en skuldir einkageirans 6,7 milljörðum dollara eða 56% af landsframleiðslu.
Í skýrslunni segir að í upphaflegu áætlun AGS og íslenskra stjórnvalda hafi verið gert ráð fyrir að allar erlendar skuldir bankanna yrði afgreiddar og afskrifaðar í gjaldþrotameðferð. Hinsvegar gefi nýjar upplýsingar í skyn að erlendir kröfuhafar gömlu bankanna muni endurheimta 1,5 milljarða dollara í gegnum skiptinguna á milli gömlu og nýju bankanna. Og að endurheimtast muni 1,3 milljarðar dollara af innstæðum og fjárfestingum gömlu bankanna.
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn býst við því að erlendar skuldir íslenska þjóðarbúsins nái hámarki í 310% af landsframleiðslu á þessu ári. Í skýrslunni segir: Miklar skuldir hins opinbera og erlendar skuldir Íslands eru áhyggjuefni, en samkvæmt greiningu starfsmanna sjóðsins munu skuldirnar lækka ef efnahagsáætluninni er fylgt".
AGS gerir ráð fyrir að skuldirnar lækki jafnt og þétt frá og með næsta ári. Í skýrslunni kemur fram að gert sé ráð fyrir að 75% fáist upp í Icesave skuldbindingar ríkisins í gegnum þrotabú Landsbankans og það sé jákvætt fyrir skuldastöðuna.
Í skýrslunni segir ennfremur að skuldir íslenska ríkisins verði áfram mjög háar og nái hámarki í 136% af landsframleiðslu árið 2010. Eftir það er talið að skuldir ríkisins lækki og niðurskurður í rekstri hins opinbera muni hjálpa til. Árið 2014 er gert ráð fyrir að ríkissjóður verði rekinn með afgangi.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.